19.11.2010 | 16:41
Fjölmiðlar sem fjórða valdið
Oft hefur verið talað um fjölmiðla sem fjórða valdið. Ljóst er að fjölmiðlar hafa mikil áhrif á skoðanir fólks til manna og málefna. Fjölmiðlar vinsa úr þeim upplýsingum sem fyrir liggja í þjóðfélaginu, útdrátt sem þeir koma til almennings. Þetta er mikill vandi og ef illa tekst til, fær almenningur ekki réttar upplýsingar eða hálfan sannleikann. Þá hefur fólk ekki réttar forsendur til að kjósa. Í litlu samfélagi er rekstur fjölmiðla erfiður og þeir eru því útsettir fyrir inngripi fjársterkra aðila sem sjá sér hag í að reka fjölmiðil sem er þeim vinveittur í fréttaflutningi. Þess vegna er lykilatriði að eignarhald fjölmiðla sé opinbert og gegnsætt þannig að almenningur geti áttað sig á skekktum fréttaflutningi miðilsins. Auk þess þarf að setja skýrar reglur um sjálfstæði fjölmiðla gagnvart eigendum sínum, öðrum fjársterkum aðilum og yfirvöldum.
Standa þarf vörð um tjáningarfrelsi um allt sem varðar mannréttindi þegnanna, almannahagsmuni og stjórnvaldsákvarðanir. Fjölmiðlar virði friðhelgi einkalífsins sem skilgreina þarf. Skilgreina þarf einnig hlutverk ríkisfjölmiðla, ekki síst í kosningabaráttu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.