13.4.2013 | 11:06
Auglýsingar kostaðar af skattgreiðendum
Auglýsingar kosta stórfé og það gefur því auga leið að fyrirtæki auglýsa vegna þess að auglýsingar hafa áhrif og auka viðskiptin. Sama á við um auglýsingar stjórnmálaflokka. Þær eru til þess gerðar að auka fylgi flokkana, en er eitthvað að því? Er ekki markmið flokka einmitt að auka fylgi sitt? Vissulega, en ekki hafa allir jafn mikið fjármagn úr að spila til að auglýsa, þannig að framboðin standa ójafnt af vígi. Auk þess eru þær oftast innihaldslitlar ímyndarauglýsingar sem sýna brosandi fólk. Textinn er yfirleitt frasakenndur og opinn, eins og traust stjórn, aukin hagsæld, meiri velmegun, framsókn til betri lífskjara, kröftugt atvinnulíf, hagsmunir heimilanna og fleira sem segir í raun ekki neitt. Í raun eru stjórnmálaflokkarnir að kaupa atkvæði fólks með fjármagni sem þeir fá m.a. úr ríkisjóði. Í dag hafa menn fjölda tækifæra til að kynna stefnumál sín án þess að borga fyrir það. Ég hvet framboðin til að spara auglýsingakostnaðinn og alla kjósendur að forðast þá sem hyggjast kaupa atkvæði okkar í komandi kosningum. Mitt atkvæði er ekki falt fyrir fé, en þitt?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.