18.11.2010 | 23:11
Auðlindir til lands og sjávar
Sagan segir okkur að undirstaða velsældar er sameiginleg yfirráð þjóðar yfir auðlindum sínum. Með því móti getur þjóðin sjálf notið auðlinda sinna og ávaxta þeirra. Tryggja þarf að svo sé um hnútana bundið í nýrri stjórnarskrá Íslands. Þetta er því miður ekki einfalt mál. Auðlindirnar eru margar og ólíkar.
Við höfum vatn sem fellur af himnum ofaná landið okkar og rennur í gegn um það ofanjarðar eða neðanjarðar til sjávar. Það er neysluvatn og orka sem eðlilegt er að þjóðin eigi og nýti, en eigendur jarða fái ókeypis afnot af til eigin nota.
Landið er líka auðlind sem mikilvægt er að yrkja til að tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar. Leiguliðastefna hefur ekki gefist vel í landbúnaði, en því miður er það form að verða æ algengara, með uppkaupum ríkra manna á bújörðum landsins. Best er að bújarðirnar sjálfar séu í eigu bændanna sem yrkja þær. Þannig fáum við betri umgengni við landið. Forðast þarf að of stór hluti bújarða fari í hobbýeign ríkra manna og tryggja þarf umgengnisrétt almennings á landinu þó það sé í einkaeigu, þannig að öllum sé leyfilegt að ferðast um landið.
Í sjónum er fólgin mikil auðlind. Tryggja þarf eignarhald þjóðarinnar á óveiddum fiski þannig að útgerðir geti ekki selt eða leigt óveiddan fisk. Arður útgerðanna þarf að koma af veiðunum sjálfum en ekki braski með fiskveiðikvóta. Þjóðin á sjálf að njóta ávaxtanna af auðlindinni með leigu á fiskveiðiheimildum. Þannig getur hún líka afturkallað leyfi til útgerða verði þær uppvísar að brottkasti fisks eða annarrar slæmrar umgengni við náttúruauðlindina.
Fleiri verðmætar auðlindir geta leynst á láði og legi sem ekki er vitað um núna eða ekki verið hagkvæmt að nýta til þessa. Í þeim tilfellum þarf þjóðin sjálf að ákveða hvernig ber að nýta þær.
Vernda þarf auðlindir okkar gagnvart mengun og öðru því sem skaðað getur þær. Óheimilt sé að rýra möguleika komandi kynslóða til að lifa á Íslandi og stuðlað sé að sjálfbærni til lands og sjávar, þannig að við göngum ekki á rétt komandi kynslóða að lifa í heilnæmu umhverfi.
Athugasemdir
Sæl Elín, langaði að segja þér eftir að vera búin að lesa höfund að mér líst vel á sjónarmið þín og mun ég gefa þér stuðning minn með atkvæði. Hafðu þökk fyrir.
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 18.11.2010 kl. 23:53
Sæl Ingibjörg.
Mig langar til að þakka þér þessar línur. Ég hef rekið mína kosningabaráttu í gegn um tölvuna og hef haft litla hugmynd um hvort ég er að komast í gegn um einhvern múr þannig að eftir mér sé tekið. Síðustu daga hef ég þó verði að fá hvatningarkveðjur sem eru mjög dýrmætar. Aðkeyptum auglýsingum hef ég hafnað en treyst því að fólk sem þekkir mig af störfum mínum bendi öðrum á að kynna sér stefnumál sín. Bestu kveðjur.
Elín Erna Steinarsdóttir, 19.11.2010 kl. 10:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.