Dómsvaldið

Ein af grunnstoðum réttláts þjóðfélags er gott réttarkerfi sem þegnarnir treysta. Tryggja þarf að lögin nái jafnt yfir háa sem lága og að dómsvaldið sé sjálfstætt og óháð valdaöflum í þjóðfélaginu. Í núgildandi stjórnarskrá er það ekki nógu tryggt. Hún setur t.d. ekki reglur um skipan hæstaréttardómara. Tryggja þarf að þeir séu ekki ráðnir pólitískri ráðningu sem litað getur dóma þeirra. Ég tel að eftir að fram hefur farið mat á hæfi umsækjenda, kjósi Alþingi hæstaréttardómara, þar sem aukinn meirihluti þurfi að nást um kjörið.
Ég tel að taka eigi fram í stjórnarskrá að markmið laga skuli skilgreind með skýrum hætti og ráði úrslitum þegar dæma þarf eftir óljósum lagatexta. Þá þarf að auka möguleika almennra borgara til að sækja rétt sinn gagnvart stjórnvöldum, opinberum aðilum og öðrum þeim sem eru í lykilstöðu í þjóðfélaginu og misnota hana. Mikilvægt er að menn geti ekki komist undan réttvísinni vegna formgalla í ákæru, hins vegar beri alltaf að virða mannréttindi þeirra sem sæta ákæru.
Skilgreina þarf með afgerandi hætti hvað er landráð og í hvaða farveg eigi að beina slíkum málum. Varðandi Landsdóm þá hefur það sýnt sig að breyta þarf fyrirkomulagi á ráðherraábyrgð. Þar kemur tvennt til, annars vegar að fyrning hennar er of stutt í núgildandi stjórnarskrá og hins vegar að ekki er hægt að leggja þá ábyrgð á samstarfsmenn ráðherra að gefa út ákæru á hendur þeim.
Dómskerfið þarf að vera óumdeilanlegt. Ef almenningur treystir því ekki myndast nýr dómstóll sem er oftast óvægnari en nokkur annar. Þetta er dómstóll götunnar. Hann gefur engin grið, hann sýknar ekki fólk, hann gefur fólki ekki færi á að taka út refsingu og byrja upp á nýtt í sátt við samfélgið. Hann er óhæfur dómstóll í réttarríki. Má ég biðja um vandað opinbert dómskerfi sem þegnar landsins treysta.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband