Færsluflokkur: Bloggar

Lýðræði

Hvað þarf til að tryggja lýðræði? Við búum við ýmis lýðræðisréttindi sem eru ekki sjálfgefin. Okkur finnst sjálfsagt að allir hafi rétt á að kjósa óháð stétt, stöðu eða efnahag. Þetta er því miður ekki sjálfgefið, sums staðar þarf að borga sig inn á kjörskrá eins og gerist t.d. í Bandaríkjunum. Framkvæmd og eftirlit með kosningum er gott hér á landi þannig að kosningaleyndin er tryggð, svo enginn geti beitt annan þrýstingi. En er lýðræði á Íslandi þá ekki fullkomið? Því miður er ekki svo og illu heilli eru auglýsingar leyfðar fyrir kosningar og framboðum er ekki tryggður jafn aðgangur að fjölmiðlum. Þetta verður til þess að fjármagn hefur áhrif á fylgi flokkana, eða með öðrum orðum þá er hægt að kaupa sér fylgi. Að lokum má líka benda á að skoðanakannanafyrirtækin eru ekki háð opinberu eftirliti og skoðanakannanir hafa skoðanamyndandi áhrif. Látum ekki innantóm slagorð í auglýsingum hafa áhrif á skoðanir okkar, eltum ekki fylgissveiflu í skoðanakönnunum, heldur kynnum okkur stefnuskrá flokkana og kjósum sjálfstætt.


Tímir þú að borga skatta?

Í hugum margra eru skattar neikvæðir. Fólk horfir á eftir peningum sem fara til samneyslunnar sem glötuðu fé sem hefði verið hægt að nota til að kaupa sér ýmisleg þægindi. Þá gleymist að taka tillit til þess að við erum í raun að borga svo ótalmargt með skattfé okkar sem við tökum ekki eftir dags daglega. Við erum að borga fyrirfram fyrir heilbrigðisþjónustu sem við þurfum öll á að halda að meira eða minna leyti og vex með hækkandi aldri. Við erum að borga fyrir menntun okkar og barnanna okkar, fyrir löggæslu og eftirlitskerfi. Við erum líka að borga fyrir ýmiskonar forvarnir, sjúkraflutninga, slökkvistörf og öryggisstofnarnir. Við erum að borga fyrir samgöngunet og viðhald þess. Við erum í raun að borga með sköttunum okkar að meira eða minna leyti fyrir flest það sem nauðsynlegt er í nútíma velferðarþjóðfélagi annað en húsnæði, fæði og klæði. Með sköttunum tryggjum við líka lágmarksframfærslu þeirra sem minna mega sín einhverra hluta vegna og sýnum þannig að við stöndum undir því að vera samfélag sem stendur saman um velferð hvers og eins. Myndi þjónustan sem nú er veitt af hinu opinbera verða ódýrari ef einkaaðilar tækju hana að sér? Hefðu allir efni á að kaupa þá þjónustu sem þeir þurfa? Gætum við yfirleitt talað um samfélag án skatta?

 


Menntamál á dagskrá?

Ríkissjónvarpið auglýsti umræðuþátt um heilbrigðismál og menntamál í sjónvarpinu í kvöld. Hver frambjóðandi fékk frá 22 sekúndum upp í 1,5 mínútu til að tjá sig. Nánast ekkert rætt um hvort leggja eigi fé í menntun þjóðarinnar. Spurning hversu björt framtíðin er ef áhuginn á menntamálum er ekki meiri en þetta. 

Öreigastefna

Fátækur er eignalaus maður, þess vegna reyna flestir að eignast eitthvað sem annað hvort gefur af sér arð eða sparar útgjöld. Það sama á við um þjóðir, það er mikilvægt að til séu innlend fyrirtæki sem selja afurðir til útflutnings til að afla gjaldeyris  fyrir því sem við þurfum að kaupa frá útlöndum. Á sama hátt er mikilvægt að eiga fyrirtæki og fasteignir sem spara útgjöld í erlendum gjaldeyri. Ef erlendir aðilar ættu t.d. allar fasteignir á Íslandi rynni leigan af þeim öll úr landi. Arður af fyrirtækjum í erlendri eigu fer út úr hagkerfinu. Eftir því sem fleiri eignir verða í eigu erlendra aðila, þeim mun meira þarf að skattleggja þær til að tryggja ávöxtun af henni fyrir þjóðina. Þetta dregur kraftinn úr fyrirtækjunum þannig að launin lækka sem þau geta greitt, sem veldur því að skattstofn einstaklinganna lækkar. Þá kemur minni tekjuskattur inn, sem veldur því að hækka verður skattprósentuna, sem minnkar einkaneysluna, sem veldur því að minni virðisaukaskattur skilar sér. Þannig er þetta spírall niður á við þegar við höfum minnkað tekjustofninn sem fólginn er í eignum okkar. 


Vaknað af Þyrnirósarsvefni?

Eftir langt hlé hef ég ákveðið að endurvekja þessa litlu síðu mína því kosningar eru í námd. Nú sem endranær er mikilvægt að vanda sig við valið. Þau mál sem mér eru mjög hugstæð eru m.a. að ekki verði gengið lengra í einkavæðingu ríkisfyrirtækja, að fjármálakerfi þjóðarinnar verði endurskoðað til að fyrirbyggja nýtt hrun og meiri eignatilfærslu frá þeim fátæku til þeirra ríku. Einnig að endurskoða stjórnarskrána til að styrkja lýðræðið, að afnema leyndarhyggju og efla upplýsingalög. Mikilvægt er að kjósendur þrýsti á stjórnmálaflokka um svör við þeim spurningum sem brenna á hverjum og einum og láta ekki plata sig með innantómum fagurgala.

Hjálp!

Ný hrunstjórn er í pípunum. Sjálfstæðisflokkurinn hallar sér að Samfylkingu. Þá eignast einkaaðilar arðinn af nýtingu orkuauðlindanna, sægreifarnir halda áfram að selja aðganginn að auðlindum þjóðarinnar og stinga í rassvasann eða koma honum til Tortóla. Stórkallaleiðirnar fara aftur á fullt skrið, skattar verða lækkaðir á þá sem eiga einhverja peninga o.s.frv. Guð hjálpi okkur!

Hvað næst?

Búið er að taka af þjóðinni lýðræðislagar kosningar vegna formgalla, þrátt fyrir að engar ábendingar hefi komið fram um kosningasvik.

Búið er að taka kjörbréf af lýðræðislega kjörnum fulltrúum þjóðarinnar vegna formgalla í kosningum þrátt fyrir að allar líkur séu á að þeir hafi verið rétt kjörnir.

Að óbreyttu kemur stjórnlagaþing ekki saman fyrir miðjan febrúar eins og kveðið er á um í lögum. Allt stefnir í þvingað lögbrot vegna ógildingar kosningar til stjórnlagaþings.

Hæstiréttur landsins vitnar með ónákvæmum hætti í lög um stjórnlagaþing í dómsorði sínu vegna kosninga til þingsins.

Hæstiréttur Íslands er pólitískt skipaður og eru 8 af níu dómurum landsins skipaðir af sama flokknum. Rétturinn er því ekki sjálfstæður dómstóll heldur framlenging á valdi eins flokks.

Hæstiréttur hefur gefið hættulegt fordæmi með hörðum dómi sínum vegna formgalla í kosningum. Þetta gefur nýjan möguleika á að fella úr gildi óhagstæðar kosningar með lagaklækjum.

Samtök atvinnulífsins beita stjórnvöld þvingunum í þágu sérhagsmuna. Dæmi um þetta er að knýja fram ákvæði um stóriðjuframkvæmdir í svo kölluðum Stöðugleikasáttmála og að hóta því að ekki verði samið um kaup og kjör nema kvótagreifar haldi sínu.

Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar er þverbrotin. Sumir bera ábyrgð á skuldum sínum en aðrir ekki og sumir njóta launaleyndar en aðrir ekki, svo dæmi séu tekin.

Hvað næst?

Sjá grein Reynis Axelssonar

http://silfuregils.eyjan.is/2011/02/03/reynir-axelsson-athugasemdir-vid-akvordun-haestarettar-um-ogildingu-kosningar-til-stjornlagathings/#comments


Óvænt gjöf

Í dag fór ég að kjósa mér fulltrúa á stjórnlagaþing. Alveg óvænt gilti atkvæði mitt meira en helmingi meira en búast mátti við. Um 60% þjóðarinnar treystu okkur sem kusu til að kjósa fyrir sig og ráða hverjir sitja þingið. Ætla má að þetta fólk vilji ekki jafna vægi atkvæða þegar það eftirlætur öðrum allt atkvæði sitt. Eru það skilaboðin til þingmanna frá þessum hópi að þeim sé sama um lýðræðið? Eitt er víst að ekki þýðir fyrir þetta fólk að kvarta undan einu né neinu. Það fékk tækifæri til að kjósa sér fulltrúa til að smíða nýjan lagagrundvöll, en gaf það frá sér til okkar hinna Smile

Tímamót í lífi þjóðar

Dagurinn í dag er einstakur í lífi ungrar þjóðar. Í dag fáum við að kjósa um nýtt upphaf að því samfélagi sem við lifum í. Það er von mín og trú að þjóðin muni velja fulltrúa sem eru vandanum vaxnir. Fólk sem hefur að leiðarljósi að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkur hennar og hugsar um hagsmuni allra Íslendinga í nútíð og framtíð. Fögnum þessum fallega degi og mætum á kjörstað.

Teningunum kastað

Nú líður að stóra deginum og ég bið þess að þeir fulltrúar sem þjóðin velur til setu á stjórnlagaþingi reynist vandanum vaxnir. Nú verð ég að treysta á að mér hafi tekist að vekja athygli á framboði mínu og baráttumálum, þrátt fyrir að hafa ekki keypt auglýsingar. Ég verð líka að treysta á orðspor mitt og að þeir sem þekkja mig og treysta, hafi talað máli mínu. Ég óska þjóðinni guðs blessunar á þessum stóru tímamótum og hvet alla til að kjósa á morgun. Öðrum frambjóðendum þakka ég fyrir góða og drengilega kosningabaráttu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband