Til kjósenda minna

Fyrir mig sem er óþekkt kona og hef ekki keypt auglýsingar er mikilvægt að þið setjið mig í fyrsta sæti til að eiga möguleika. Kjósið svo endilega sem flesta, þá er engin hætta á að atkvæði ykkar nýtist ekki til fulls.

Sjá upplýsingar um stefnumál mín í fyrri greinum hér á síðunni á

http://www.ruv.is/stjornlagathing/frambjodendur?nr=6681

http://www.kosning.is/stjornlagathing/frambjodendur/#index:E


Þú færð það sem þú vilt

Nú hefur þú val. Viltu lýðræði eða flokksforingjaræði? Viltu eiga auðlindirnar eða viltu gefa þær auðhringjum? Viltu varðaveita náttúruna að viltu sóa henni? Viltu vera virkur þátttakandi í lýðræðisþjóðfélagi eða fýlupoki heima í stofu.
http://kjostu.org/

Arðurinn til þjóðarinnar

Kæru kjósendur! Nú á lokasprettinum langar mig að árétta að ég mun leggja höfuð áherslu á að þjóðin njóti ávallt sjálf ávaxtanna af auðlindum sínum. Í nýja stjórnarskrá þarf að setja inn ákvæði sem kemur í veg fyrir að arðurinn af þeim renni til auðhringja, erlendra eða innlendra. Einnig að auðlindirnar verði nýttar með sjálfbærum hætti. Sjá nánar um stefnumál mín í fyrri greinum hér á síðunni.

Lýðræði

Setja þarf skýrar reglur um lýðræði í nýrri stjórnarskrá. Taka fram að valdið komi frá þjóðinni og kjörnir valdhafar stjórni í umboði hennar. Mikilvægt er að þjóðin og minni hluti Alþingis geti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu í mikilvægum málum og að stjórnarskrárbreytingar fari í þjóðaratkvæðagreiðslu í stað óbeinna kosninga um þær eins og núgildandi stjórnarskrá segir til um. Einnig þarf að setja reglur um skoðanakannanir í aðdraganda kosninga og eftirlit með þeim sem framkvæma þær. Jafnframt þarf að tryggja gegnsæi og stemma stigu við fjármagni í kosningabaráttu. Þetta þarf að gera til að allir hafi jafna möguleika á að koma sér á framfæri og til að koma í veg fyrir óeðlileg áhrif fjársterkra eða valdamikilla aðila á frambjóðendur.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

Náttúra Íslands er dýrmæt auðlind sem margir Íslendingar taka ekki eftir og telja sjálfgefna. Sannast sagna dettur manni enn í hug að fólk lifi eftir gamla orðtækinu sem segir ,,Lengi tekur sjórinn við“ eða það notar strútsaðferðina að stinga höfðinu í sandinn og sjá hvort ruslið og mengunin sem það skilur eftir sig hverfi ekki bara af sjálfu sér. En það gerist bara ekki. Við þurfum sjálf að hafa fyrir því að hreinsa upp eftir okkur skítinn og koma í veg fyrir að hann verði til, annars getum við staðið frammi fyrir því einn daginn að við eigum ekki lengur ómengað vatn, loft, land og sjó. Þá verð ég kannski komin undir græna torfu, en vil ég láta afkomendur mína hirða upp eftir mig skítinn og þurfa að neyta mengaðra matvæla? Svarið mitt er nei. Hvert er svarið þitt? Má bjóða þér ákvæði um sjálfbærni í nýrri stjórnarskrá?

Réttindi barna og ungmenna

Mikilvægt er að Ísland undirgangist alþjóðlega mannréttindasáttmála eins og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þeir bundnir í stjórnarskrá. Einnig að embætti umboðsmanns barna sé stjórnarskrárbundið. Einnig þarf að mínu mati að taka fram að hagsmunir barna eiga að ganga ofar hagsmunum foreldra í barnaverndarmálum og forræðismálum. Ég vil þó taka það fram að sem betur fer, fara hagsmunir barna og foreldra oftast saman. Börnin eru okkar mesta auðlind, þau eru framtíð þjóðarinnar.

Menntamál í stjórnarskránni

Góð menntun er grunnur að öflugu samfélagi. Í stjórnarskránni þarf að tryggja með afgerandi hætti jafnrétti til menntunar. Jafnframt að námsáhugi skuli efldur með fjölbreyttum námsaðferðum. Ef til vill þarf líka að skilgreina hvaða námsþætti þurfi að lágmarki að kenna s.s. lestur og ritun, stjórnarskrána sjálfa, siðfræði, hættur hjarðhegðunar, sjálfbærni, lágmarks uppeldisfræði, upplýsingatækni, stærðfræði, grunnþekking á rekstri heimilis, íslensku og erlend tungumál.

Ísland hlutlaust og friðelskandi ríki

Við ættum að líta til stjórnarskrár Japans varðandi afstöðu íslands til hernaðar og varnarmála. Þar stendur, að því er mér skilst, að bannað sé að ráðast á annað ríki með hervaldi. Þetta ákvæði settu Japanir inn í stjórnarskrá sína eftir sára reynslu þeirra úr seinni heimstyrjöldinni. Þá fundu þeir hve hættulegt er að virkja þau ógnaröfl sem falin eru í hernaðarmætti nútímans. Betri vörn væri að friðmælast við aðra og eiga góð samskipti við önnur ríki.

Öllum ætti að vera ljóst að Íslendingar gætu aldrei varið sig með hernaðarmætti þegar stórþjóðir geta það í raun ekki heldur. Betra er að verja sig með orðum og góðum gjörðum. Ég legg til að sett verði í stjórnarskrá ákvæði um herlaust og friðelskandi Ísland.


Gott framtak

Þegar risinn fór af stað var vel að verki staðið. Ég fór í viðtal hjá Ævari Kjartansyni á laugardag og skilst mér að það hafi verið útvarpað í morgun. Það var kannski ekki á besta tíma en hægt er að fara inn á það á vef ríkisútvarpsins http://www.ruv.is/stjornlagathing/frambjodendur . Ég þakka RÚV fyrir þetta tækifæri og Ævari ásamt meðframbjóðendum mínum í hljóðveri, fyrir góða nærveru.
mbl.is Talað var við nærri 500 frambjóðendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingar og gegnsæi

Mannréttindakafli stjórnarskrár er mikilvægur, en til þess að tryggja að farið sé eftir honum þarf stjórnarskráin að kveða skýrt á um upplýsingaskyldu og tryggja vandað dómsvald sem er óháð framkvæmavaldi og fjársterkum aðilum. Leiðin til að tryggja jafnrétti er að fólk fái fréttir af hvers konar mismunun svo hægt sé að bregðast við henni. Þannig geta þeir sem beittir eru misrétti sótt rétt sinn. Í þessu sambandi er líka mikilvægt að tryggja sjálfstæði fjölmiðla. Með aukinni upplýsingu og óháðum fjölmiðlum berst menntuð þjóð fyrir rétti sínum gagnvart valdhöfum og fjársterkum aðilum. Einnig þarf að auka möguleika fólks til að sækja rétt sinn gagnvart þessum sömu aðilum í gegn um dómskerfið. Eignarhald á öllum fyrirtækjum sé opinbert og öllum aðgengilegt. Einnig má það ekki vera svo flókið að almenningur geti ekki grundað í því.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband