Ein þjóð í einu landi

Í nýrri stjórnarskrá þarf að tryggja jafnvægi milli þéttbýlis og dreifbýlis. Núverandi kjördæmaskipan hefur ekki tryggt það. Þrátt fyrir ójafnt atkvæðavægi dreifbýli í hag hallar stöðugt á landsbyggðina og fjármunir og fólk streyma til þéttbýlisins á Suðvesturhorninu. Önnur afleiðing núverandi kerfis er sú að tvær þjóðir búa í landinu, borgarbúar og dreifbýlisfólk. Mér finnst þetta ekki ganga upp. En hvað er þá til ráða? Leiðin gæti verið er að setja í stjórnarskrána reglur um lágmarksþjónustu á hverju svæði, þannig að allir geti búið við mannsæmandi skilyrði óháð búsetu? Þá gætum við leyft okkur að jafna atkvæðisrétt fólks að fullu og sameinað allt landið í eitt kjördæmi. Vonandi gætum við þá líka leyft okkur að vera ein þjóð og setja hagsmuni allrar þjóðarinnar í forgang.

Mannréttinda og samfélagskafli

Samhliða skýrum kafla um mannréttindi einstaklinga, þarf að fjalla um samfélagslega ábyrgð þegna landsins og grunngildi sem myndar samfélagssáttmála þjóðarinnar. Standa þarf vörð um þau mannréttindi sem nú þegar eru skilgreind í stjórnarskrá og huga þarf að stöðu minnihlutahópa. Svo samfélag geti talist siðað þurfa allir að njóta sambærilegra réttinda. Minnihlutahópar hafa í gegn um tíðina átt undir högg að sækja og lýðræðið tryggir ekki rétt þeirra þar sem meirihlutinn ræður. Stjórnarskráin þarf því að taka á þessu vandamáli og tryggja réttindi allra. Allir ættu að vera jafnir fyrir lögum og stuðla ber að jafnrétti þegnanna í sem víðustum skilningi. Friðhelgi einkalífsins þarf að skilgreina með skýrum hætti og tilgreina takmarkanir eins og t.d. þegar ofbeldisverk eru unnin innan veggja heimilisins. Þannig sé staðið vörð um frelsi einstaklingsins svo lengi sem það ógnar ekki frelsi annarra og almannahagsmunum.

Orð í tíma töluð

Ein af grunnstoðum lýðræðis er menntun og almenn upplýsing þegnanna. Það er vitað að áhugi vex með aukinni þekkingu og því mjög mikilvægt að fjalla um grunnlög þjóðarinnar. Þó stjórnarskráin sem við eigum núna sé ekki beint skemmtileg aflestrar, er alveg hægt að fjalla um hana þannig að áhugi vakni. Sá áhugi er mikilvæg undirstaða þeirrar lýðræðishugsunar að fólkið í landinu taki afstöðu til mála og kjósi um þau. Auk þess er mikilvægt fyrir alla að vera meðvitaðir um réttindi sín og skyldur.
mbl.is Stjórnarskráin verði skyldunám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með stírur í augunum

Landsdómur er að rumska eftir langan svefn og er eiginlega alls ekki vakanaður. Enginn virðist kunna á þetta apparat og allir eru eftir sig eftir átök samhliða kæru sem vinir og samstarfsmenn Geirs Haarde þurftu að taka afstöðu til. Í nýrri stjórnarskrá þarf að breyta ákvæðinu um Landsdóm.
mbl.is Átelur vinnubrögð landsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig á stjórnarskráin að vera?

Þær greinar núverandi stjórnarskrár sem fjalla um stjórnkerfi Íslands og samspil Alþingis og forseta annars vegar og forseta og ráðherra hins vegar, eru mjög ruglingslegar. Túlkun hennar hefur fram undir þetta verið meira í samræmi við óskráðar hefðir en það sem stendur í henni og deilur hafa verið um hvernig ber að túlka hana. Þetta er ekki gott og grefur undan henni sem grundvallarriti sem vísa á þjóðinni veginn. Ef borgararnir skilja hana ekki sameiginlegum skilningi sameinar hún ekki þjóðina heldur sundrar henni. Stjórnarskráin þarf því að vera skýr og skiljanleg öllum landsmönnum og auðvelt þarf að vera að fara eftir henni. Eðlilegt er að stjórnarskáin byrji á skilgreiningu á þjóðargildum, síðan kæmi mannréttindakaflinn, þá stjórnkerfiskaflinn og í lokin væru öll grundvallar hugtök stjórnarskrárinnar skilgreind með afgerandi hætti til þess að tryggja sameiginlegan skilning þegnanna á henni. Dæmi um hugtök sem gætu komið fram í nýrri stjórnarskrá og þyrfti að skilgreina eru velferð, lífsgæði, þjóðareign, eignarréttur, einkalíf, almannahagsmunir, frelsi, ábyrgð og samfélagsábyrgð.

Forseti Íslands

Í núgildandi stjórnarskrá er kaflinn um forseta Íslands afar ruglingslegur. Eins og stendur er forsetinn eini öryggisventillinn til að hafa hemil á ofríkum stjórnvöldum sem virða vilja þjóðarinnar að vettugi. Þetta er ekki nógu mikið öryggi, vegna þess að það er undir einum manni komið hvort lög taka gildi eða eru send í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi öryggisventill ætti því að vera í höndum þjóðarinnar og minnihluta Alþingis. Aðkoma forseta að stjórnarmyndunarviðræðum er ekki skrifuð í stjórnarskrána heldur byggist á hefðum. Þessu þarf að breyta svo ljóst sér hvert hlutverk hans er í stjórnarmyndunarviðræðum sem og í öðrum embættisverkum.

Svar við fyrirspurn um ferðafrelsi

Ég styð eindregið og mun beita mér fyrir ákvæði um rétt almennings til frjálsra ferðalaga um landið í nýrri stjórnarskrá. Það væri stórslys ef landeigendur gætu meinað fólki að ferðast um lönd sín og heft þannig ferðafrelsi almennings um landið. Jafnframt þessu þarf að setja inn ákvæði um umgengni við landið, þannig að fólki líðist ekki slæm umgengni við náttúru Íslands.

Eftirlitsaðilar og ábyrgð

Í íslenska efnahagshruninu kom í ljós að margt fór úrskeiðis í samfélaginu sem leiðrétta þarf. Eitt af því er að enginn telur sig bera ábyrgð. Samt hefur stórum hópum manna verið greidd há laun vegna ábyrgðar í störfum þeirra. Skilgreina þarf hvað felst í ábyrgð. Að skrifa undir skjal þýðir að viðkomandi samþykkir innihald þess eða að vitundarvottur staðfestir rétta dagsetningu og undirskrift rétts aðila. Skýrar reglur þurfa að gilda um eftirlitsaðila, hlutverk og skyldur. Endurskoðendur sem skrifa undir reikningsskil fyrirtækja ættu að vera samábyrgir þeim sem skrifar reikningana nema þeir geti sýnt fram á að þeir hafi verið leyndir upplýsingum. Annars mætti spara kostnað við endurskoðun. Mikilvægt er að til sé óháð eftirlitsstofnun sem er aðhald við stjórnvöld. Persónuvernd gegnir slíku aðhaldi varðandi einkalíf borgaranna en stundum hefur persónuvernd torveldað eftirlit með lögbrotum. Mikilvægt er að hún standi vörð um og verndi löghlýðna borgara sem ganga ekki á rétt annarra þjóðfélagshópa eða alls almennings.

Fjármagnið sem fimmta valdið

Fjármagn hefur í gegn um aldirnar verið lykill að völdum og áhrifum. Stjórnarskráin þarf að taka á þessu valdi og setja leikreglur sem stemma stigu við fjármagnsvaldinu. Menn kaupa auglýsingar í undanfara kosninga, styrkja stjórnmálaflokka og annað sem aukið getur áhrif þeirra í samfélaginu. Setja þarf fjármagnseigendum skýr mörk og tryggja að þeir hafi ekki áhrif á lýðræðið og stjórnvaldsákvarðanir. Einnig þarf almennur borgari að hafa leið til að kalla fram rannsókn á hugsanlegri misnotkun á fjármagni.

Uppbyggjandi lausn

Mér finnst að skurðstofur úti á landi ættu að sérhæfa sig í smærri aðgerðum og bjóða upp á þá þjónustu á landsvísu. Þannig væri hægt að halda fleiri skurðstofum opnum og bæta nýtingu fjármagns til þeirra.
mbl.is Minna skorið af hinum stóru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband