Fjölmiðlar sem fjórða valdið

Oft hefur verið talað um fjölmiðla sem fjórða valdið. Ljóst er að fjölmiðlar hafa mikil áhrif á skoðanir fólks til manna og málefna. Fjölmiðlar vinsa úr þeim upplýsingum sem fyrir liggja í þjóðfélaginu, útdrátt sem þeir koma til almennings. Þetta er mikill vandi og ef illa tekst til, fær almenningur ekki réttar upplýsingar eða hálfan sannleikann. Þá hefur fólk ekki réttar forsendur til að kjósa. Í litlu samfélagi er rekstur fjölmiðla erfiður og þeir eru því útsettir fyrir inngripi fjársterkra aðila sem sjá sér hag í að reka fjölmiðil sem er þeim vinveittur í fréttaflutningi. Þess vegna er lykilatriði að eignarhald fjölmiðla sé opinbert og gegnsætt þannig að almenningur geti áttað sig á skekktum fréttaflutningi miðilsins. Auk þess þarf að setja skýrar reglur um sjálfstæði fjölmiðla gagnvart eigendum sínum, öðrum fjársterkum aðilum og yfirvöldum.

Standa þarf vörð um tjáningarfrelsi um allt sem varðar mannréttindi þegnanna, almannahagsmuni og stjórnvaldsákvarðanir. Fjölmiðlar virði friðhelgi einkalífsins sem skilgreina þarf. Skilgreina þarf einnig hlutverk ríkisfjölmiðla, ekki síst í kosningabaráttu.


Auðlindir til lands og sjávar

Sagan segir okkur að undirstaða velsældar er sameiginleg yfirráð þjóðar yfir auðlindum sínum. Með því móti getur þjóðin sjálf notið auðlinda sinna og ávaxta þeirra. Tryggja þarf að svo sé um hnútana bundið í nýrri stjórnarskrá Íslands. Þetta er því miður ekki einfalt mál. Auðlindirnar eru margar og ólíkar.

Við höfum vatn sem fellur af himnum ofaná landið okkar og rennur í gegn um það ofanjarðar eða neðanjarðar til sjávar. Það er neysluvatn og orka sem eðlilegt er að þjóðin eigi og nýti, en eigendur jarða fái ókeypis afnot af til eigin nota.

Landið er líka auðlind sem mikilvægt er að yrkja til að tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar. Leiguliðastefna hefur ekki gefist vel í landbúnaði, en því miður er það form að verða æ algengara, með uppkaupum ríkra manna á bújörðum landsins. Best er að bújarðirnar sjálfar séu í eigu bændanna sem yrkja þær. Þannig fáum við betri umgengni við landið. Forðast þarf að of stór hluti bújarða fari í hobbýeign ríkra manna og tryggja þarf umgengnisrétt almennings á landinu þó það sé í einkaeigu, þannig að öllum sé leyfilegt að ferðast um landið.

Í sjónum er fólgin mikil auðlind. Tryggja þarf eignarhald þjóðarinnar á óveiddum fiski þannig að útgerðir geti ekki selt eða leigt óveiddan fisk. Arður útgerðanna þarf að koma af veiðunum sjálfum en ekki braski með fiskveiðikvóta. Þjóðin á sjálf að njóta ávaxtanna af auðlindinni með leigu á fiskveiðiheimildum. Þannig getur hún líka afturkallað leyfi til útgerða verði þær uppvísar að brottkasti fisks eða annarrar slæmrar umgengni við náttúruauðlindina.

Fleiri verðmætar auðlindir geta leynst á láði og legi sem ekki er vitað um núna eða ekki verið hagkvæmt að nýta til þessa. Í þeim tilfellum þarf þjóðin sjálf að ákveða hvernig ber að nýta þær.

Vernda þarf auðlindir okkar gagnvart mengun og öðru því sem skaðað getur þær. Óheimilt sé að rýra möguleika komandi kynslóða til að lifa á Íslandi og stuðlað sé að sjálfbærni til lands og sjávar, þannig að við göngum ekki á rétt komandi kynslóða að lifa í heilnæmu umhverfi.


Dómsvaldið

Ein af grunnstoðum réttláts þjóðfélags er gott réttarkerfi sem þegnarnir treysta. Tryggja þarf að lögin nái jafnt yfir háa sem lága og að dómsvaldið sé sjálfstætt og óháð valdaöflum í þjóðfélaginu. Í núgildandi stjórnarskrá er það ekki nógu tryggt. Hún setur t.d. ekki reglur um skipan hæstaréttardómara. Tryggja þarf að þeir séu ekki ráðnir pólitískri ráðningu sem litað getur dóma þeirra. Ég tel að eftir að fram hefur farið mat á hæfi umsækjenda, kjósi Alþingi hæstaréttardómara, þar sem aukinn meirihluti þurfi að nást um kjörið.
Ég tel að taka eigi fram í stjórnarskrá að markmið laga skuli skilgreind með skýrum hætti og ráði úrslitum þegar dæma þarf eftir óljósum lagatexta. Þá þarf að auka möguleika almennra borgara til að sækja rétt sinn gagnvart stjórnvöldum, opinberum aðilum og öðrum þeim sem eru í lykilstöðu í þjóðfélaginu og misnota hana. Mikilvægt er að menn geti ekki komist undan réttvísinni vegna formgalla í ákæru, hins vegar beri alltaf að virða mannréttindi þeirra sem sæta ákæru.
Skilgreina þarf með afgerandi hætti hvað er landráð og í hvaða farveg eigi að beina slíkum málum. Varðandi Landsdóm þá hefur það sýnt sig að breyta þarf fyrirkomulagi á ráðherraábyrgð. Þar kemur tvennt til, annars vegar að fyrning hennar er of stutt í núgildandi stjórnarskrá og hins vegar að ekki er hægt að leggja þá ábyrgð á samstarfsmenn ráðherra að gefa út ákæru á hendur þeim.
Dómskerfið þarf að vera óumdeilanlegt. Ef almenningur treystir því ekki myndast nýr dómstóll sem er oftast óvægnari en nokkur annar. Þetta er dómstóll götunnar. Hann gefur engin grið, hann sýknar ekki fólk, hann gefur fólki ekki færi á að taka út refsingu og byrja upp á nýtt í sátt við samfélgið. Hann er óhæfur dómstóll í réttarríki. Má ég biðja um vandað opinbert dómskerfi sem þegnar landsins treysta.

Gallað kerfi

Breyta þarf atvinnuleysistryggingakerfi í atvinnutryggingakerfi. Nú sem stendur hefur fólk á bótum í mörgum tilfellum meira á milli handanna en fólk í láglaunastörfum. Þetta getur einfaldlega ekki gengið. Breyta þarf þessu kerfi þannig að það borgi sig alltaf að taka atvinnutilboði eða fólk þurfi að sinna samfélagsþjónustu meðan það leitar að vinnu.
mbl.is Þúsund manns hafa misst réttindi til bóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vantar?

Tryggja þarf í nýrri stjórnarskrá að eins sé tekið á hvítflibbaglæpum og öðrum. Einnig að viðurlög séu í samræmi við skaðann sem afbrotið leiðir af sér frekar en hvort notað er kúbein, tölva eða penni við verknaðinn.
mbl.is Enginn í haldi í Glitnismáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnkerfi Íslands

Breytingar á stjórnkerfi Íslands þurfa að miða að meira sjálfstæði löggjafarvaldsins og dómsvaldsins gagnvart framkvæmdavaldinu og fjármagnsvaldinu. Margar hugmyndir hafa verið nefndar en þeir sem sitja á stjórnlagaþingi þurfa að vera opnir fyrir hugmyndum, málefnalega gagnrýnir, tilbúnir að hlusta á aðra en samt stefnufastir svo upphaflegt markmið um réttláta, skýra og góða stjórnarskrá  verði að veruleika.


Íslenska, innflytjendur og íslenskur ríkisborgararéttur

Ein af stóru spurningunum til framtíðar er staða íslenskrar tungu. Ég tel að taka eigi fram að íslenska skuli vera opinbert mál á Íslandi. Þetta er mikilvægt til að glata ekki menningarverðmætum sem fólgin eru í heimildum á íslenskri tungu og tengingu við sögu lands og þjóðar. Þannig sé tekið fram í stjórnarskrá að meginreglan sé að nota skuli íslensku á Íslandi. Þessu fylgir að tryggja þarf rétt innflytjenda til íslenskunáms. Ég tel rétt að innflytjendum sem vilja verða Íslendingar sé boðið upp á að fara í gegnum ferli sem lýkur með íslenskum ríkisborgararétti. Þannig sæki fólk um ríkisborgararétt og að uppfylltum skilyrðum um að geta skilið og tjáð sig á íslensku, hafi þekkingu á íslensku samfélagi, stjórnarskránni og hafi ekki komist í kast við lögin á umsóknartímanum. Á nýafstöðnu þingi innflytjenda í Borgarleikhúsinu benda þeir á að mikilvægt er að læra íslensku og að varðveita eigin tungu samhliða. Þetta tel ég mjög mikilvægt að tryggt sé á Íslandi. Í hinum alþjóðlega heimi eru börn innflytjenda sem eru jafnvíg á tvö eða fleiri tungumál, hrein gersemi.

Á hvaða öld erum við?

Sláandi frétt sem bendir til þess að heilsubrestur sé að hluta til afleiðing af þeirri samfélagsgerð sem hér er við lýði. Ákveðnir þjóðfélagshópar virðast útsettari fyrir skertri starfsorku en aðrir. Það kemur ekki á óvart að í þessum hópi eru þeir sem búa við misrétti fjölmennari en aðrir.
mbl.is Fleiri konur en karlar öryrkjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra seint en aldrei

Risinn er að vakna til vitundar um ábyrgð sína. Betra seint en aldrei. Sennilega þarf kirkjan fljótlega að standa á eigin fótum. Eins gott er fyrir kirkjunnar menn að bæta ímynd sína. Ég tel rétt að hafa sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um samband ríkis og kirkju, sem gæti verið samhliða þjóðaratkvæði um nýja stjórnarskrá.
mbl.is Kirkjuþing samþykkir nefndina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn

Í ljós kom í kjölfar hrunsins að lífeyrissjóðakerfið er meingallað. Í fyrsta lagi getur fólk ekki valið í hvaða lífeyrirsjóð það greiðir og fólk hefur ekki val um hvort það greiðir yfir höfuð í lífeyrissjóð. Ofan á þá þvingun að greiða stórfé á hverju ári til sjóðanna hefur almennur sjóðfélagi ekki beinan kosningarétt um hverjir stjórna þessum eftirlaunasjóði hans og hefur engin tæki til að losna við fjárglæframenn úr stjórnum þeirra ef þeir rata þangað. Í öðru lagi eru lífeyrisréttindi misgóð eftir sjóðum, sem er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, fyrst fólk getur ekki valið sér lífeyrirsjóð sjálft. Í þriðja lagi eru upplýsingar um rekstur lífeyrirssjóðanna ekki nógu aðgengilegar fyrir sjóðsfélaga, sem eiga að geta skoðað sundurgreindan rekstur þess sjóðs sem geymir eftirlaunasjóð þeirra. Í fjórða lagi eru lífeyrirsjóðum settar reglur um lágmarksávöxtun, sem hvetur sjóðina til áhættufjárfestingar án raunverulegs umboðs frá sjóðfélögum. Við fáum ekki enn að vita hver er staða lífeyrissjóðanna eftir hrun þó þeir geymi okkar eigið fé. Að óbreyttu geta stjórnendur lífeyrissjóðanna eytt ellilífeyri almennings í vonlausa áhættufjárfestingu, s.s. flugfélög og byggingafyrirtæki, án þess að hinn almenni sjóðsfélagi geti rönd við reist.

Hægt væri að hafa einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn með stjórn sem væri kjörin með vönduðum hætti og gæti ekki setið lengi. Þetta væri mikill sparnaður þar sem rekstur lífeyrirsjóðanna hefur verið mjög dýr. Hægt væri líka að tryggja jafnræði með því að fólk gæti ráðið í hvaða lífeyrissjóð það greiðir og jafnframt fært féð sitt til milli sjóða, ef það vill. Ef hins vegar er haldið áfram með núverandi kerfi verður að tryggja að sjóðsfégagar geti kosið stjórn sjóðanna beinni kosningu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband